Afnot af gögnum

Rannsakendur hjá viðurkenndum rannsóknastofnunum geta sótt um aðgang að gögnum til vísindarannsókna í gegnum rannsóknaþjónustu Hagstofu Íslands.

Öll gögn um einstaklinga og fyrirtæki sem Hagstofa Íslands safnar til hagskýrslugerðar eru skilgreind sem trúnaðargögn. Í samræmi við 13. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 167/2007 hefur Hagstofan heimild til að veita aðgang að gögnum og ætti að stuðla að því að gögn hennar nýtist til tölfræðilegra vísindarannsókna. Aðgangur að trúnaðargögnum Hagstofunnar er háður þeim skilyrðum að fjarlægð hafi verið öll bein og óbein auðkenni svo að ekki sé unnt að rekja upplýsingar til tiltekinna einstaklinga eða lögaðila.

Hagtölur

Rannsóknaþjónusta Hagstofu Íslands var stofnuð í lok árs 2016 til þess að sjá um afgreiðslu og meðferð allra umsókna um trúnaðargögn Hagstofunnar. Rannsakendur sem sækja um gögn Hagstofunnar þurfa að starfa hjá viðurkenndum rannsóknastofnunum. Rannsóknaþjónustan hefur það hlutverk að meta hvort rannsóknastofnanir eða fyrirtæki uppfylli skilyrði Hagstofunnar og fái því stöðu vottaðs bakhjarls. Hagstofa Íslands gerir þær kröfur að saga eða orðspor þeirrar rannsóknastofnunar sem sækir um aðgang sýni hágæða rannsóknir sem eru aðgengilegar almenningi og unnar í almannaþágu, eða að bakhjarl sé opinber stofnun eða ráðuneyti með ríkar greiningarþarfir vegna stefnumótandi stjórnsýsluákvarðana. Stofnunin þarf að vera sjálfstæð og sjálfráða í að setja fram vísindalegar niðurstöður og uppfylla forsendur um upplýsingatækni og innviði til að tryggja gagnaöryggi.

Rannsóknaþjónustunni bárust 16 gagnaumsóknir á árinu 2017. Tveimur beiðnum var hafnað þar sem sótt var um afhendingu persónuupplýsinga með beinum auðkennum. Rannsóknaþjónustan afhendir almennt ekki gögn, en veitir þess í stað aðgang að þeim í gegnum öruggan fjaraðgang eftir að bein auðkenni hafa verið fjarlægð og hætta á óbeinum rekjanleika hefur verið metin. Þessi aðferð gerir Hagstofunni kleift að tryggja gagnavernd þeirra upplýsinga sem hún veitir aðgang að. Þrjár af 16 gagnaumsóknum er bárust rannsóknaþjónustunni voru afgreiddar með sérvinnslu. Sérvinnsla er sérsniðin tölfræði framkvæmd af sérfræðingum Hagstofunnar sem rannsakendur geta nýtt í rannsóknir sínar.

Rannsóknaþjónustunni barst jafnframt beiðni um aðgang að samnorrænum gögnum. Hagstofa Íslands hefur verið þátttakandi í samnorrænu verkefni sem ber heitið NordMan. Eitt af meginverkefnum NordMan er að auðvelda vísindafólki á Norðurlöndunum að fá aðgang að samskonar gögnum frá mismunandi löndum. Beiðnin um samnorræn gögn er nú í ferli hjá rannsóknaþjónustu Hagstofunnar. Rannsóknaþjónustan samþykkti því níu umsóknir um aðgang að trúnaðargögnum á árinu 2017.

Rannsóknaþjónusta Hagstofunnar hefur unnið að því að einfalda og stytta ferli við yfirferð og afgreiðslu gagnabeiðna. Jafnframt hefur verið áframhaldandi vinna við að hafa viðmið og skilyrði við samþykki umsókna um trúnaðargögn Hagstofunnar skýr og öllum aðgengileg. Fulltrúar rannsóknaþjónustu Hagstofunnar hafa haldið sex kynningar meðal starfsmanna Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri og fundað tvisvar með notendahópi rannsóknarsamfélagsins.