Starfsfólk

Í lok árs 2017 störfuðu 105 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofunni í 102 fullum stöðugildum, 55 karlar og 50 konur. Þetta er aukning um 4% frá fyrra ári. Meðalaldur starfsmanna var tæp 47 ár og höfðu þeir starfað að meðaltali í rétt tæp níu ár á Hagstofunni. Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna var 85% í lok árs 2017 og jókst hlutfall háskólamenntaðra á Hagstofunni því á milli ára líkt og þróunin hefur verið undanfarin ár. Tíu starfsmenn hættu störfum hjá Hagstofunni á árinu og 14 nýir starfsmenn hófu störf. Auk fastráðinna starfsmanna störfuðu hjá Hagstofunni á árinu alls 74 lausráðnir spyrlar sem unnu um 6,5 ársverk við innsöfnun gagna.

Fræðsla

Fræðsla ársins var fjölbreytt eins og svo oft áður. Boðið var upp á tveggja daga námskeið í verkefnastjórnun, auk þess sem deildir Hagstofunnar fengu fræðslu og þjálfun í notkun töflustjórnunar. Mikið var um kynningar af ýmsu tagi. Nýir starfsmenn fengu sérstaka fræðslu um Hagstofuna og starfsemi hennar, deildir Hagstofunnar kynntu starfsemi sína og verkefni fyrir samstarfsfólki, auk þess sem fjölmargir sérfræðingar, bæði innan og utan Hagstofu, héldu kynningar á áhugaverðum niðurstöðum rannsókna byggðum á gögnum Hagstofunnar.

Félagslíf

Starfsmannafélag Hagstofunnar stóð fyrir ýmsum uppákomum árið 2017, þar ber hæst árshátíðin sem heppnaðist einstaklega vel og var haldin í Garðabæ. Eins og hefð er orðin fyrir var farið í haustferð, en að þessu sinni var Sögusafnið í Reykjavík heimsótt og svo haldið út fyrir borgarmörkin þar sem boðið var upp á mat í Þrastarlundi og fræðslu og bjórsmakk í bjórverksmiðjunni Ölveri. Fyrir jólin bauð hagstofustjóri starfsfólki í jólaglögg, auk þess sem yngri fjölskyldumeðlimum starfsmanna var boðið í jólaföndur og jólatrésskemmtun.

Af öðrum viðburðum sem starfsmannafélagið stóð fyrir má nefna fjölskylduhátíð í Gufunesi, japanskt matreiðslunámskeið, bjórkynningu og fyrirlestra frá Röggu nagla og Eddu Björgvins. Alþjóðlegi ljótupeysudagurinn var haldinn hátíðlegur á Hagstofunni 15. desember, auk þess sem sett var upp jólabíó fyrir starfsmenn eftir vinnu einn daginn skömmu fyrir jól.

Jólaglögg
Eftirfarandi myndir eru frá jólaglöggi starfsmannafélags Hagstofunnar.
Jólaglögg
Jólaglögg
Jólaglögg