Fjármál og rekstur

Hagstofa Íslands var rekin með 43,8 m.kr. afgangi árið 2017, en með 5 m.kr. halla árið 2016. Breyting á afkomu skýrist af auknu aðhaldi í rekstri, auk þess sem ráðningar fóru seinna af stað en áætlað var. Heildartekjur námu samtals 1.405,9 m.kr. Framlag frá ríkissjóði hækkaði úr 1.152,3 m.kr. í 1.253,9 á milli ára eða um 8,8%. Sértekjur hækkuðu um 1,7 m.kr. eða 1%. Heildargjöld ársins voru 1.362 m.kr. og hækkuðu um 5% á milli ára, en þar af var launakostnaður 1.138,5 m.kr. eða 83,6% af heildarútgjöldum.

Rekstrarreikningur (milljónir króna)

Tekjur 2017
Alls 1.405,9
Framlag úr ríkissjóði 1.253,9
Sértekjur 152,0
Gjöld
Alls 1.362,0
Laun 1.138,5
Ferðakostnaður, námskeið, fundir 30,8
Rekstur 15,8
Þjónusta 61,6
Verkkaup 4,8
Húsnæðiskostnaður 100,6
Eignakaup 9,9
Tekjuafgangur / halli 43,8

Tekjur

Heildartekjur Hagstofunnar árið 2017 voru 1.405,9 m.kr. Framlag úr ríkissjóði var 1.253,9 en vegna breyttra reikningsskilaaðferða lækkar framlagið sem nemur fjárfestingu ársins að fjárhæð 19,7 m.kr. Fjárfestingarheimildin er færð inn í efnahagsreikning sem frestaðar tekjur. Framlag til afskrifta 9,9 m.kr. eru nú gjaldfærðar í rekstrarreikningi sem veldur hækkun á rekstrarkostnaði en á móti er sama fjárhæð tekjufærð sem hluti af frestuðum tekjum.

Hækkun ríkisframlags skýrist að mestu af launa- og verðlagsuppfærslu fjárlaga, auk þess að fjárveiting fékkst vegna launatölfræði og umhverfistölfræði.

Sértekjur

Sértekjur ársins 2017 námu 152 m.kr., þar af voru 57,1 m.kr. vegna þjónustusamnings við kjararannsóknarnefnd og 13,9 m.kr. vegna þjónustusamnings við kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Seld þjónusta nam 46,7 m.kr. sem er hækkun frá fyrra ári, en þá var seld sérfræðiþjónusta 36,56 m.kr. Styrkir frá erlendum aðilum námu 19,25 m.kr. Sala hagskýrslna, aðrar tekjur og fjármunatekjur námu um 15 m.kr.

Rekstrargjöld

Heildargjöld ársins námu 1.362 m.kr. Stærstu útgjaldaliðir Hagstofunnar eru sem áður laun og launatengd gjöld eða sem nemur um 83,6% af heildarútgjöldum. Launaútgjöld hækkuðu um 6,1% á milli ára vegna fjölgunar starfsmanna og kjarasamninga. Húsnæðiskostnaður er annar stærsti útgjaldaliðurinn og nemur hann 7,4% af heildargjöldum. Verkkaup voru nánast þau sömu á milli ára eða 4,8 m.kr.

Launakostnaður nam 1.138,5 m.kr. og önnur rekstrargjöld 223,5 m.kr. Önnur rekstrargjöld skiptast þannig: Húsnæðiskostnaður 100,6 m.kr., aðkeypt þjónusta 61,6 m.kr., ferðakostnaður, námskeið og fundir 30,8 m.kr., almennur rekstur 15,8 m.kr., en aðrir liðir vega minna. Óverulegar breytingar voru á öðrum rekstrargjöldum á milli ára.

Bókfærð eignakaup árið 2017 eru ekki sambærileg við fyrra ár vegna breytinga á reikningsskilastöðlum í samræmi við lög um opinber fjármál. Eignakaup eru nú færð til eignar og afskrifuð í stað þess að vera gjaldfærð að fullu. Eignakaup ársins voru að fjárhæð 19,7 m.kr. en afskriftir fastafjármuna námu 9,9 m.kr.