Hinn 1. desember 2017 opnaði Hagstofan sérstakan vef sem tileinkaður er hagtölum sem ná eins langt aftur í tíma og heimildir leyfa. Verkefnið kallast „Sögulegar hagtölur“. Hagstofan og forverar hennar hafa talið það til mikilvægrar þjónustu að veita sem best sögulegt yfirlit hagtalna á hverjum tíma.
Gegnum tíðina hafa birst ýmsar opinberar samantektir sem meira eða minna voru helgaðar löngum tímaröðum og birtar á prenti, ýmist í hagskýrslum eða sem sjálfstæð rit. Meðal slíkra rita sem út komu á tuttugustu öld voru Tölfræðihandbók sem Hagstofan gaf þrívegis út á árunum 1967 til 1984 og Sögulegt yfirlit hagtalna sem Þjóðhagsstofnun gaf út í fimm skipti á árunum 1988 til 1998 með hagtölum um efnahagsmál frá 1945. Síðast en ekki síst gaf Hagstofan út árið 1997 viðamikið rit ásamt geisladiski sem hét Hagskinna — Sögulegar hagtölur um Ísland. Viðtökurnar sem ritið fékk voru frábærar. Í sögulegum rannsóknum er víða litið á Hagskinnu sem undirstöðurit, því að mikið er vitnað í ritið þegar kemur að hvers kyns hagnýtingu sögulegra hagtalna, a.m.k. fram til 1990. Útgáfa Hagskinnu átti langan meðgöngutíma og kostaði mikið átak og var framhald þeirrar vinnu óráðið næstu árin á eftir. Að verkinu loknu skapaðist ákveðið tómarúm, eða umþóttunartími, og var sú skoðun útbreidd eftir útgáfu Hagskinnu að vefurinn myndi án mikillar fyrirhafnar bæta nýjustu árunum við helstu tímaraðir sem myndast höfðu, frá árinu 1991 að telja. Það gekk ekki upp nema að hluta og fyrir vissa efnisflokka sem þýddi að lítið bættist við enn aðrar tímaraðir. Á það ber að líta að opinber hagskýrslugerð á Íslandi var þá í mikilli mótun og var í mörg horn að líta í tilefni af þátttöku Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem hófst formlega árið 1994.
Eftir því sem lengra leið frá útgáfu Hagskinnu varð mönnum betur ljós nauðsyn þess að Hagstofan kæmi á framfæri við notendur stafrænni útgáfu af sögulegum hagtölum sem stæðust nokkurn veginn samanburð við útgáfu Hagskinnu og gott betur. Árið 2014, þegar Hagstofan fagnaði 100 ára afmæli, lágu fyrir áform um að gera bragarbót í útgáfu sögulegra hagtalna á komandi árum. Opnun vefsíðunnar með sögulegum hagtölum í desember 2017 er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að nútímavæða birtingu slíkra hagtalna eins og frekast er unnt. Því ber að líta á opnun vefgáttarinnar með sögulegum hagtölum sem þróunarverkefni og mikilvægan áfanga í áformum Hagstofunnar um að þjóna notendum hagtalna sem best með sem ýtarlegustu talnaefni til að tengja saman nútíð og fortíð.
Að varðveita sögulegar hagtölur á stafrænu formi á vefnum hefur marga kosti fyrir notendur. Með því að notendur sögulegra hagtalna geta nálgast talnaefni með keimlíkum hætti og hinn almenni vefur Hagstofunnar, bjóðast nú dýpri sundurliðanir á hagtölum sem áður voru birtar í samandregnu formi. Þetta þýðir að samtímis er framboð upplýsinga meira en áður, jafnhliða auknum sveigjanleika við að sækja hagtölur á vefinn. Þá er ekki síður mikilvægt að í vefumhverfi hagtalna er hægt að bregðast fljótt við athugasemdum og ábendingum til að bæta gæði upplýsinganna hverju sinni. Þetta á einnig við um skýringar við töflurnar sem skipta afar miklu máli fyrir notendur og skilning þeirra á talnaefninu, tilurð hverrar töflu, aðferðafræði og þeim fyrirvörum sem oft þarf að setja við niðurstöður sem ná til tímabila þar sem hagskýrslugerðin var skipulögð með fleiri en einni aðferð. Þá ber að hafa í huga að í mörgum tilvikum eru langar tímaraðir afurðir fræðilegrar vinnu sem ýmist er leyst af hendi utan opinberra hagskýrslustofnana eða innan þeirra.
Hagstofan stefnir að því að með sérhverri tímaröð fylgi lýsigögn þegar fram líða stundir. Veftöflur sögulegra hagtalna hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að auðvelda notendum hagnýtingu þeirra hagtalna sem þeir vinna með. Þetta er meðal annars gert með því að einfalda og samræma framsetningu talnanna svo notendur þurfi ekki að óþörfu að umreikna verðmæti og stærðir, t.d. vegna breytinga í flokkunarkerfum sem hagskýrslugerðin starfar eftir á hverjum tíma. Með sögulegum hagtölum er í aðra röndina leitast við að brúa bil á milli flokkunarkerfa og mismunandi eininga, en einnig getur verið gagnlegt að birta hagtölur samkvæmt skilgreiningum frá gamalli tíð.
Þessu til viðbótar ber að geta þess merka áfanga að Hagstofan hefur í samvinnu við Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn látið ljósmynda og setja á vefinn timarit.is nær allar hagskýrslur sem Stjórnarráð Íslands (Landshagsskýrslur fyrir Ísland), Hagstofa Íslands (Hagskýrslur Íslands og Hagtíðindi) og Þjóðhagsstofnun gáfu út á tímabilinu 1874 til 2003, en árin eftir það eru tiltæk á vef Hagstofunnar. Áður hafði Landsbókasafnið látið setja á sama vef Skýrslur um landshagi á Íslandi (21 hefti í fimm bindum) sem út komu á árunum 1855 til 1875. Má því fullyrða að nú sé aðgengileg á netinu samfelld útgáfa opinberra hagskýrslna áranna 1855 til dagsins í dag. Eftir er að setja á vefinn fáeina hagskýrsluflokka sem einkum voru í umsjá og ábyrgð stofnana utan Hagstofunnar og er tímasetning þess sem eftir er að miðla ennþá óljós.