Skýrsla yfirstjórnar

Alls voru haldnir níu yfirstjórnarfundir á árinu, þar að auki voru átta fundir yfirstjórnar í verkefnastofu til að fylgja eftir lykilverkefnum Hagstofunnar. Mikil eftirspurn notenda eftir nýjum og breyttum hagtölum setti sterkan svip á starfsemi Hagstofunnar árið 2017 og virkt samstarf var við helstu notendur. Auk reglulegra verkefna voru afgreiddar níu rannsóknarbeiðnir þar sem vísindastofnanir fengu aðgang að gögnum Hagstofunnar til rannsókna og 115 sérvinnslur voru gerðar fyrir notendur. Stjórnkerfi upplýsingaöryggis var fest í sessi og gerðar tvær ytri úttektir á stjórnkerfinu.

Málefni Hagstofu Íslands voru flutt frá forsætisráðuneyti til fjármálaráðuneytis í upphafi árs 2017, en eftir kosningar og ríkisstjórnarskipti undir lok árs voru þau flutt aftur til forsætisráðuneytisins með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 84/2017.

Heimsókn ráðherra málefna Hagstofu Íslands

Fjármálaráðherra heimsótti Hagstofuna í janúar. Farið var yfir helstu verkefni og stefnu Hagstofunnar og kynnti ráðherra áherslur sínar í hagskýrslumálum. Fram kom í máli ráðherra að hann legði ríka áherslu á sjálfstæði og hlutlægni Hagstofunnar. Einnig að ráðherra vildi efla hagskýrslugerð og auðvelda notkun stjórnsýslugagna til hagskýrslugerðar. Með honum í för voru aðstoðarmaður fjármálaráðherra og embættismenn úr fjármálaráðuneytinu.

Frá heimsókn fjármálaráðherra
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kom ásamt fylgdarliði í heimsókn á Hagstofuna 31. janúar. Á myndinni eru frá vinstri: Sverrir Jónsson, skrifstofustjóri rekstrarsviðs, Anna Borgþórsdóttir Olsen, staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar, Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri, Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Hrafnhildur Arnkelsdóttir, sviðsstjóri félagsmálasviðs, Björn Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri efnahagssviðs, Elsa Björk Knútsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs, Þórhallur Arason, staðgengill ráðuneytisstjóra og Böðvar Þórisson, sviðsstjóri fyrirtækjasviðs.

Persónuvernd lauk frumkvæðisathugun sinni

Í upphafi árs lauk Persónuvernd frumkvæðisathugun á öryggi persónuupplýsinga hjá Hagstofu Íslands, athugun sem hófst árið 2014. Hagstofan upplýsti Persónuvernd um að unnið væri að innleiðingu vottaðs stjórnkerfis upplýsingaöryggis og að áætlað væri að ljúka henni árið 2016. Af þeim sökum frestaði Persónuvernd athugun sinni og óskaði eftir því að verða upplýst um það þegar vottað stjórnkerfi væri komið á. Hagstofan upplýsti Persónuvernd um vottunina í ágúst 2016 og í kjölfarið var málið tekið upp að nýju. Kallaði Persónuvernd eftir ýmsum nánari upplýsingum og veitti Hagstofan skrifleg svör, auk þess sem gerð var vettvangsskoðun. Niðurstaða Persónuverndar, sem barst í janúar 2017, er að öryggi persónuupplýsinga hjá Hagstofunni samræmdist ákvæðum 11. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og reglna nr. 299/2001, um öryggi persónuupplýsinga. Taldi Persónuvernd ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.

Vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis

Hagstofan rekur vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 27001. Stjórnkerfið nær til allrar starfsemi stofnunarinnar. Frumvottun fékkst árið 2016 og voru gerðar tvær ytri úttektir árið 2017 án alvarlegra athugasemda. Ytri úttektir eru unnar af viðurkenndum vottunaraðila, en stöðugar umbætur í kjölfar innri úttekta eru gerðar af starfsmönnum Hagstofunnar á milli ytri úttekta.

BSI-Assurance-Mark-ISO-27001
Merki ISO 27001-staðalsins
um upplýsingaöryggi.

Samstarfssamningur við Félagsvísindastofnun

Hagstofan og Félagsvísindastofnun gerðu með sér samstarfssamning á sviði rannsóknasamvinnu í mars. Markmið samningsins er að auka samstarf aðila og bæta innlenda rannsóknarinnviði með því að veita sérfræðingum Félagsvísindastofnunar tækifæri til að vinna rannsóknarverkefni í samstarfi við Hagstofu Íslands eða vinna að framgangi verkefna sem lúta að innlendum rannsóknarinnviðum og bættri þjónustu við innlenda rannsakendur.

NordMan-fundur á Íslandi

Verkefnastjórn Nordic Microdata Access Network (NordMan) fundaði á Hagstofu Íslands í mars. Verkefnið fjallar um að gera samhæft norrænt lýsigagnakerfi fyrir örgögn til vísindarannsókna. Með því á að gera vísindamönnum kleift að nálgast sambærileg gögn frá öllum hagstofum Norðurlanda gegnum hagstofu hvers lands. Gert er ráð fyrir að þessu verkefni ljúki á næsta ári.

NordMan-fundur
Frá samnorrænum fundi í NordMan-verkefninu sem haldinn var á Hagstofunni 28. mars. Þar hittust fulltrúar norrænu hagstofanna og fjölluðu um verkefnið, en fundinum stjórnaði Anton Karlsson.

Heimsókn frá Eistlandi

Sex manna sendinefnd frá Eistlandi kom til Hagstofunnar í námsferð í marslok. Undirbúningar að stafrænu manntali er nú í fullum gangi þar í landi. Haldið var tveggja daga námskeið þar sem farið var yfir öll helstu mál sem varða gerð manntala sem byggjast á stjórnsýsluskrám.

Heimsókn frá Eistlandi
Eistlendingar heimsóttu Hagstofuna 30. og 31. mars og fræddust um gerð stafræns manntals. Heimsóknin var í umsjón Ómars Harðarsonar.

Mælikvarðar fyrir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hagstofa Íslands er verkefnastjórn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ráðgjafar um tölfræði og sátu fulltrúar stofnunarinnar flesta fundi verkefnastjórnarinnar. Unnið var að stöðuskýrslu fyrir Ísland, en í því fólst talsverð tölfræðivinna. Gert er ráð fyrir 244 mælikvörðum til að mæta 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiðanna 17. Unnið var að því að kortleggja gagnalindir og gera breytulýsingar fyrir sem flesta mælikvarða, enda mikilvægt að leggja traustan grunn að svo viðamiklu verkefni sem ætlað er að nái til ársins 2030.

Stofnanasamningar

Á árinu gerði Hagstofan stofnanasamninga við FÍF, FHSS, FSS, KVH og Fræðagarð. Með því voru menntunarákvæði gerðardóms frá árinu áður felld inn í stofnanasamninga að mestu, auk þess sem nýr samningur við FSS var löngu tímabær uppfærsla á eldri samningi frá 2007. Samningarnir eiga við flesta starfsmenn Hagstofunnar en enn er þó ósamið við FÍN og félag verkfræðinga.

Stofnanasamningur undirritaður
Föstudaginn 10. febrúar var undirritaður stofnanasamningur Hagstofunnar við FHSS, FÍF, KVH og Fræðagarð sem tekur meðal annars til menntunarákvæða gerðardóms. Sátt var milli samningsaðila um að útfæra sömu menntaákvæði fyrir öll félögin til að gæta jafnræðis. Krafa BHM-félaganna var að menntun yrði metin til launa og með þessari útfærslu verður menntun starfsmanna þessara félaga metin að fullu hjá Hagstofunni í takt við hámarks útfærslu menntaákvæða gerðardóms.

Fundir með notendum

Stofnaðir voru tveir nýir notendahópar á árinu, notendahópur ferðaþjónustunnar og notendahópur stjórnsýslunnar. Aðrir notendahópar eru greiningaraðilar, rannsóknarsamfélagið og fjölmiðlar. Alls voru haldnir sex notendafundir á árinu.

Notendafundur
Fundur var haldinn í notendahópi ferðaþjónustunnar 19. september. Reynir Kristjánsson gæðastjóri stjórnaði fundinum.
Notendafundur
Á fundinn mættu sjö aðilar utan Hagstofu og 12 starfsmenn Hagstofunnar.

Ferðaþjónustureikningar

Ferðaþjónustureikningar hafa nú um nokkurt skeið verið unnir sem hluti af vinnslu þjóðhagsreikninga og verður svo áfram. Stigið var stórt skref á árinu til að auka tímanleika þessarar tölfræði þegar birt var áætlun fyrir nýliðið ár á grundvelli áætlana og gagna fyrri ára.

Aðferðafræðilýsing fyrir þjóðhagsreikninga

Gerð ýtarlegrar aðferðafræðilýsingar fyrir vinnslu þjóðhagsreikninga hófst á árinu en verkefnið er hluti af endanlegri innleiðingu ESA2010 þjóðhagsreikningastaðalsins sem hagstofum í Evrópska hagskýrslusamstarfinu (ESS) er gert að skila.

Vinnustofa um kassakerfisgögn

Í júní var haldin tveggja daga vinnustofa um notkun kassakerfisgagna við verðmælingar á neysluverðsvísitölum. Fundinn sóttu 50 sérfræðingar frá evrópskum hagstofum, hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), Seðlabanka Evrópu og Hagstofu Kanada.

Heiðrún Erika Guðmundsdóttir
Hópmynd frá vinnustofu um notkun kassakerfisgagna
Svipmyndir frá vinnustofunni á Hótel Nordica.
Ólafur Hjálmarsson

Landamærarannsókn

Hafin var söfnun á tölfræðilegum gögnum um erlenda ferðamenn, en verkefnið var boðið út í samstarfi við Ferðamálastofu. Rannsóknin er framkvæmd með könnun á Keflavíkurflugvelli, sem fylgt er eftir með vefkönnun og beinist að erlendum ferðamönnum sem hafa dvalist á Íslandi og Íslendingum búsettum erlendis sem ferðast til Íslands. Þessi rannsókn er nauðsynleg til að afla frekari upplýsinga um útgjöld, ferðatilhögun og viðhorf ferðamanna sem sækja Ísland heim.

Verðvísitölur utanríkisviðskipta birtar

Hagstofan hóf á árinu að birta verð- og magnvísitölur fyrir vöruviðskipti við útlönd. Vísitölurnar eru birtar ársfjórðungslega eftir yfirflokkum SITC-vöruflokkunarinnar og sýna samfellda ársfjórðungslega þróun bæði verðs og magns inn- og útflutnings frá árinu 2001.

Ferðavenjurannsókn

Hagstofan hóf á árinu rannsókn á ferðavenjum Íslendinga og er það í fyrsta sinn frá árinu 2008 sem rannsókn af því tagi er gerð. Sú nýbreytni var að gögnum er safnað af rannsóknarfyrirtækinu Gallup. Var samningur þess efnis undirritaður 4. júlí 2017 að undangengnu útboði sem Hagstofan vann að í samstarfi við Ríkiskaup. Samningurinn er til eins árs en getur verið framlengdur í allt að fjögur ár.

Fyrirtækjatölfræði

Á síðustu árum hefur tölfræði um rekstrar- og efnahagsyfirlit atvinnugreina verið stórlega bætt. Áfram var unnið að umbótum á árinu 2017 en sérstök áhersla var lögð á vinnu við lýðfræði fyrirtækja sem og því að lengja tímaraðir aftur í tíma. Samhliða var unnið að frekari þróun á skammtímatölfræði og skammtímahagvísum atvinnugreina sem byggist á Evrópureglugerð 1165/98 og svarar eftirspurn innlendra notenda um skammtímatölfræði.

Landbúnaðartölfræði

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að byggja upp framleiðslu á landbúnaðartölfræði þannig að bæði innlendar þarfir og alþjóðlegar skuldbindingar séu uppfylltar. Nú er svo komið að nær allar alþjóðlegar skuldbindingar eru þegar uppfylltar. Áhugi hefur verið hjá innlendum notendum á frekari upplýsingum um rekstrarskilyrði landbúnaðar og á árinu 2017 var gerður sérstakur samningur um framleiðslu á tölfræði um rekstur og afkomu búgreina.

Ferðaþjónusta

Með vaxandi vægi ferðaþjónustu hefur verið þróuð og birt ný tölfræði til að draga upp skýrari mynd af atvinnugreininni. Á árinu 2017 var bætt við nýjum útgáfum á tölfræði og verður áfram þróuð frekari tölfræði um ferðaþjónustu, auk þess sem nú er komin í rekstur rannsókn um ferðavenjur íslenskra ferðamanna til reglubundinnar birtingar ásamt landamærarannsókn.

Umhverfistölfræði

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að koma upp umhverfistölfræði í samræmi við staðla og aðferðafræði Eurostat. Á árinu 2017 hófst vinna við framleiðslu umhverfisreikninga í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar með fjármögnun á verkefninu og ráðningu sérfræðinga til verkefnisins.

Innleiðing rannsóknarkerfis

Tveir sérfræðingar gagnasöfnunardeildar sóttu námskeið í Blaise 5, sem er ný og endurbætt útgáfa af hugbúnaði sem notaður er við kannanir. Vinna við forritun og uppsetningu fyrstu gagnasöfnunarinnar í hinu endurbætta kerfi hófst í lok nóvember og miðaði vel. Gagnasöfnun með hinum nýja hugbúnaði hófst í mars 2018.

Ytra samstarf um kannanir

Gagnasöfnunardeild lauk við að innleiða í rekstur úrtaksrannsókna Hagstofunnar flettingar í símanúmeragagnagrunni 1819 á árinu. Flettingar í grunni já.is eru enn hluti af rekstrinum, en með viðbót gagnagrunns 1819 hefur þekja verið bætt. Samstarf við Gallup vegna útboðs ferðavenjurannsóknar hefur verið reglulegt á árinu, gagnasöfnunardeild heldur utan um úrtök og útsendingu kynningarbréfa vegna rannsóknarinnar. Í árslok hófst vinna við samstarfsverkefni Hagstofu, Félagsvísindastofnunar og embætti Ríkislögreglustjóra um rannsókn á kynbundnu ofbeldi. Hlutverk Hagstofunnar í verkefninu er að útbúa spurningalista fyrir heimsóknarviðtöl, síma- og vefviðtöl, og framkvæma auk þess orðalagsprófanir á listanum.

Samningur við Gallup undirritaður
Hagstofustjóri undirritaði samning við Gallup um framkvæmd ferðavenjurannsóknar Hagstofunnar að undangengnu útboði sem unnið var í samvinnu við Ríkiskaup. Í samningnum felst að Gallup mun sinna allri gagnasöfnun ferðavenjurannsóknarinnar. Á myndinni eru: Vilborg Helga Harðardóttir frá Gallup, Ólafur Elínarson frá Gallup, Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri, Elsa Björk Knútsdóttir fjármálastjóri Hagstofunnar. Í aftari röð standa Anton Örn Karlsson og Anna Lilja Karelsdóttir, sérfræðingar Hagstofunnar.

Menntatölfræði

Í júlí var gert samkomulag til eins árs við mennta- og menningarmálaráðuneytið um aukinn tímanleika í menntatölfræði. Samkomulagið gerði Hagstofunni kleift að auka útgáfur í málaflokknum.

Fundur hagstofustjóra Norðurlanda haldinn á Íslandi

Norrænt samstarf í hagskýrslugerð á sér langa og farsæla sögu og í upphafi september fór fundur hagstofustjóra Norðurlandanna fram á Íslandi. Fundirnir eru árlegir og skiptast löndin á að halda þá. Í ár var fjallað um áskoranir við að fanga stafrænan markað inn í hagskýrslugerðina, nýja evrópska persónuverndarlöggjöf og áskoranir hennar og loks um nútímavæðingu í hagskýrslugerð.

Framsetning á fréttum bætt

Nýtt miðlunarferli var tekið í notkun í október 2017. Innleiddar voru leiðbeiningar um fréttaskrif og viðmót til að meta gæði frétta, þ.m.t. hversu skiljanlegar, samræmdar og tímanlegar fréttirnar eru. Áfram verður unnið að frekari samræmingu og eftirfylgni á árinu 2018. Í framhaldi af nýju viðmóti til að meta gæði frétta var ákveðið að bæta við gæðamati fyrir veftöflur. Í því gæðamati eru atriði sem snúa einkum að því að samræma veftöflur.

Fundur um vef Hagstofunnar
Upplýsingatækni og miðlun fundar um miðlunarferli. Á myndinni eru frá vinstri: Svava Guðjónsdóttir, Tryggvi Björgvinsson og Þorbjörg Magnúsdóttir.

Varðveisla prentaðra eintaka

Varðveislu- og sölubirgðir prentaðs efnis voru yfirfarnar á árinu. Sölulager og varðveislulager voru sameinaðir og komið fyrir í bókasafnsrými Hagstofunnar og voru birgðir grisjaðar í samræmi við ákvörðun um að fækka eintökum á lager. Prentun hagskýrslna hefur að mestu verið hætt.

Vefur í stað pappírs

Tekin voru skref í átt að minni pappírsnotkun á árinu með því að nýta veflausnir í staðinn. Verðsöfnunarhugbúnaður leysti af hólmi útprentuð eyðublöð sem starfsmenn við verðsöfnun nýttu áður fyrr. Ásamt því að fækka útprentuðum eyðublöðum minnkaði villuhætta þar sem ekki þurfti lengur að slá inn eyðublöðin. Sömuleiðis var ákveðið að hætta að prenta ársskýrslu Hagstofunnar og er hún nú eingöngu birt á vef.

Sjálfvirkni í veftöflugerð

Við útgáfu á talnaefni undirbúa starfsmenn Hagstofunnar efnið sérstaklega fyrir vefinn í svonefndum PX-töflum. Í því felst talsverð handavinna sem auðvelt er að láta hugbúnað framkvæma og var því ákveðið, samhliða ákvörðun um breytta framsetningu á talnaefni, að auka sjálfvirkni. Verkefnið gafst vel og má búast við því að úrvinnsla talnaefnis til útgáfu verði enn sjálfvirkari. Það gefur ekki aðeins kost á að birta niðurstöður fyrr, heldur fækka jafnframt villum í útgefnu efni.

Vélrænt nám í hagskýrslugerð

Gerðar voru tilraunir með svokallað vélrænt nám (e. machine learning) á árinu til þess að sjá hversu vel það nýtist í hagskýrslugerð. Sérstaklega var skoðað hvernig vélrænt nám getur aðstoðað starfsmenn Hagstofunnar en minni áhersla lögð á að það leysti þá af hólmi. Hugbúnaðarlausn var útfærð sem getur aðstoðað við flokkun grunngagna. Með slíkri lausn má flýta niðurstöðum hagskýrslugerðar umtalsvert.

Norrænn fundur um búferlaflutninga

Í október hélt verkefnisstjórn norræna verkefnisins Norræn flæði (e. Nordic Mobility) fund á Hagstofunni. Um er að ræða samstarfsverkefni þar sem gögn frá hagstofum Norðurlandanna verða samnýtt til að fá betri mynd af samskiptum milli landanna og er verkefnið styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Í verkefninu felst sú nýjung að gerðir hafa verið tvíhliða samningar milli allra landanna um gagnkvæm skipti á örgögnum. Standa vonir til þess að þannig megi bæta verulega úr gagnagötum, t.d. varðandi menntun, þegar fólk hefur aflað sér menntunar í einu Norðurlandanna en býr síðan og starfar í öðru. Rík hefð er fyrir því að Íslendingar sæki sér menntun til hinna Norðurlandanna og mun þetta bæta gæði gagna verulega. Auk menntunar verður litið til búferlaflutninga, fjarvinnu, náms og flutnings á tekjum yfir landamæri.

Norrænt flæði
Frá fundi verkefnisstjórnar um norrænt flæði sem fram fór á Hagstofunni 10. og 11. október. Hagstofa Finnlands stjórnar verkefninu en Norræna ráðherranefndin styrkir það. Fulltrúi Hagstofu Íslands í verkefnisstjórninni er Ómar Harðarson.

Hagtölur um dánarmein

Hagstofan birti aftur tölfræði um dánarmein eftir langt hlé. Um er að ræða hagtölur sem byggjast á upplýsingum úr dánarmeinaskrá sem Embætti landlæknis hefur umsjón með. Tölurnar eru að fullu í samræmi við ríkjandi reglugerð í málaflokknum og var gögnum skilað til Eurostat fyrir árin 2010–2015.

Alþingiskosningar

Hagstofan stóð að gagnasöfnun um framkvæmd og kjörsókn í alþingiskosningum 2017. Var kjörsókn meðal annars greind eftir aldri.

Úrtaksrannsóknir hjá einstaklingum og heimilum

Hagstofan stóð að úrtaksrannsóknum hjá einstaklingum og heimilum um fjölbreytt málefni í samræmi við reglugerðir og lög þar að lútandi. Helst ber að nefna vinnumarkaðsrannsókn, lífskjararannsókn, rannsókn á útgjöldum heimilanna og rannsókn á notkun á upplýsingatækni.

Menntun og færni á vinnumarkaði

Hagstofan tekur þátt í verkefni um menntun og færni á vinnumarkaði í samstarfi við Vinnumálastofnun, ASÍ og SA, en haldin var ráðstefna á vegum verkefnisins í nóvember þar sem sérfræðingar í fremstu röð í færnispám frá Bretlandi, Svíþjóð og Írlandi kynntu þær aðferðir sem beitt er í heimalöndum þeirra og annarsstaðar í Evrópu.

Rannsókn á launamun kynjanna

Hagstofa Íslands og Velferðarráðuneytið, fyrir hönd aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, gerðu með sér samstarfssamning um rannsókn á launamun kvenna og karla. Um er að ræða framhald á rannsókn á launamun kynjanna frá árinu 2015 og voru niðurstöður kynntar í mars 2018.

Samningur um sérvinnslu vinnumarkaðsgagna

Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands gerðu með sér samkomulag um vinnslu vinnumarkaðsgagna svo að greina megi þróun einstakra atvinnugreina yfir lengri tíma en áður. Verkefnið fól meðal annars í sér að endurflokka eldri gögn vinnumarkaðsrannsóknar frá 1991 til 2008 til samræmis við atvinnugreinflokkunina ÍSAT2008. Tímaraðir á vef Hagstofunnar voru uppfærðar vorið 2017.

Sögulegar hagtölur

Hinn 1. desember 2017 opnaði Hagstofan sérvef með sögulegum hagtölum. Þar er áhersla lögð á bætt aðgengi notenda að löngum samræmdum tímaröðum á stafrænu formi sem ná frá upphafi hagskýrslugerðar til allra síðustu ára. Í þessum áfanga var samanlagður fjöldi veftaflna rúmlega 120 í 17 efnisflokkum. Hluti þessara talna hafði áður verið birtur víðs vegar á vef Hagstofunnar, en margt annað talnaefni sögulegs eðlis er nýtt og hafði ekki birst áður. Hagstofan hefur lengi talið sögulegar hagtölur mikilvægan hluta þjónustu sinnar við notendur. Síðasti stóri viðburðurinn af því tagi var árið 1997 með útgáfu ritsins Hagskinnu. Hinn nýi vefur er gjörólíkur Hagskinnu að útliti og frágangi en er nútímalegt framhald þeirrar vinnu sem miðar að bættri þjónustu við notendur sögulegra hagtalna. Mikilvægur hluti undirbúnings sögulegra hagtalna felst í því að bæta lýsingar, greinargerðir og gæði eldri hagtalna með rannsóknum og þróunarvinnu til að auka skilning notenda á þeim hagtölum sem í boði eru á vefnum. Sögulegar hagtölur eru því að hluta þróunarverkefni og verður stöðugt unnið að frekari fjölgun þeirra sögulegu hagtalna sem birtar voru í desember.

Nánar er fjallað um þetta verkefni í sérkafla í ársskýrslunni.

Sögulegar hagtölur

SA og ASÍ segja upp samningi um launarannsóknir

Undir lok árs sögðu ASÍ og SA upp samstarfssamningi Kjararannsóknarnefndar við Hagstofu Íslands um launakannanir og aðrar vinnumarkaðsrannsóknir. Samningurinn var frá árinu 2004 og var uppsegjanlegur með minnst eins árs fyrirvara miðað við áramót og verður því laus í árslok 2018. Hagstofan var með tvo sambærilega samninga um launarannsóknir, annars vegar vegna almenna markaðarins og hins vegar vegna opinbera vinnumarkaðarins við Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Hefur síðarnefnda samningnum, sem er frá árinu 2009, ekki verið sagt upp.

Samningarnir kveða á um sameiginlega ráðgjafarnefnd fyrir báða samninga. Hlutverk ráðgjafarnefndar er meðal annars að fjalla um þær launavinnslur sem aðilar óska sameiginlega eftir að Hagstofan vinni vegna undirbúnings kjarasamninga. Undanfarin ár hafa aðilar sammælst um launavinnslur í aðdraganda kjarasamninga á vettvangi ríkissáttasemjara og þær vinnslur gerðar af Hagstofunni á grundvelli samstarfssamninganna. Svo brá við árið 2017 að aðilar samninganna, annars vegar á almennum vinnumarkaði, hins vegar á opinbera markaðnum, komu sér ekki saman um launavinnslu. Reis af því ágreiningur sem aðilar báru upp við Hagstofuna til úrlausnar. Deilt var um hvað fælist í sameiginlegri beiðni og hvort eðlilegt væri að aðilar annars samningsins gætu stöðvað vinnslu sem aðilar hins samningsins færu fram á að yrði gerð. Af þessu er ljóst að þörf er á endurskoðun samninga. Svokölluð launaskriðstrygging félaga á opinberum markaði miðað við almennan markað ræðst af aðferðum við mat á launabreytingum. Opinberlega kom fram gagnrýni á launatölfræðina og reifaðar voru hugmyndir um að gjörbreyta henni. Það verkefni hefur verið til skoðunar innan stjórnsýslunnar um nokkurt skeið og stefnt er að stefnumörkun í þeim efnum á næsta ári.

Heimsókn frá Mósambik
Sendinefnd frá Mósambík heimsótti Hagstofuna 30. nóvember og fundaði með fulltrúum fyrirtækjasviðs. Nefndin kom hingað á vegum Alþjóðabankans til að kynna sér framleiðslu á tölfræði um fiskveiðar og sjávarútveg. Til gamans má geta þess að um 90% áætlaðs afla sem kemur á land í Mósambík er veiddur á litlum óvélknúnum seglbátum.