Frá hagstofustjóra

Mikilvægi opinberrar hagskýrslugerðar felst fyrst og fremst í því að staðinn sé vörður um hlutlæga og óvilhalla upplýsingagjöf sem er óháð hverskonar hagsmunum og afskiptum stjórnvalda eða hagsmunasamtaka. Að skýr skil séu á milli stjórnsýsluhlutverks eða stefnumótunar annars vegar og hagskýrslugerðar hins vegar. Stjórnmál og umræður um stefnu og leiðir eru mikilvægar í hverju lýðræðisríki. Einnig eru hagsmunasamtök mikilvæg þeim sem vinna að ákveðnum málefnum, hvort sem þau eru almenn eða sértæk. En mikilvægt er að hagskýrslugerð sé algerlega aðskilin slíkri starfsemi og að tryggt sé að hún sé óháð hverskonar stjórnmálaskoðunum, hagsmunum eða fyrirtækjum.

Sjálfstæði hagskýrslugerðar er tryggt með lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Einnig hafa íslensk stjórnvöld gerst aðilar að alþjóðastofnunum og samningum sem eiga að tryggja að staðinn sé vörður um sjálfstæði hagskýrslugerðar hér á landi. Er þar helst að nefna grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna um hagskýrslugerð og EES-samninginn, en samkvæmt honum hafa stjórnvöld innleitt reglugerð um evrópska hagskýrslugerð og birt Meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð sem eru bindandi hér á landi. Reglulega er þeim reglum fylgt eftir með heimsóknum utanaðkomandi aðila sem gera úttekt á því hvernig hagstofur í Evrópu uppfylla reglurnar.

Ekki þekkjast dæmi þess að stjórnvöld eða stjórnmálamenn hafi reynt að hafa áhrif á hagskýrslugerð hér á landi, eða þá aðferðafræði sem beitt er við hana. Þvert á móti hafa þeir stjórnmálamenn sem hafa haft málefni hagskýrslugerðar á verksviði sínu lagt ríka áherslu á hlutlæga og óvilhalla hagskýrslugerð og á sjálfstæði Hagstofunnar. Að sjálfsögðu er almenn umræða og gagnrýni á vettvangi stjórnmála, hagsmunasamtaka, fræðasamfélags og annarra um aðferðir við hagskýrslugerð, eða óskir um að framleiddar verði hagtölur um tiltekin svið þjóðfélagsmála. Er það bæði eðlilegt og nauðsynlegt um svo mikilvægt málefni. Framleiðsla hagtalna ræðst sífellt meira af erlendum skuldbindingum og seint verður brugðist við öllum þeim þörfum um upplýsingar sem fram koma. Er því nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum.

Hagstofan forgangsraðar verkefnum sínum í samræmi við fjárlög og til að standa við innlendar og erlendar skuldbindingar, auk þess að leita til notenda við forgangsröðun verkefna. Haldnir eru reglulega fundir með helstu notendum hagtalna eins og nánar er fjallað um annars staðar í ársskýrslunni. Þar gefst notendum færi á að ræða hvað má gera betur í upplýsingagjöf og aðferðafræði. Allar tillögur eru skoðaðar og forgangsraða notendur þeim á fundunum. Er reynt að verða við ábendingum innan þeirra marka sem fjárlög setja og stenst viðurkennda aðferðafræði.

Þótt ekki finnist dæmi þess að stjórnmálamenn hafi reynt að hafa áhrif á aðferðafræði hagskýrslugerðar, þá er meiri þrýstingur frá hagsmunasamtökum. Hagsmunasamtök hafa aðgang að notendahópum eins og aðrir notendur. Nái þau ekki sínu fram þar geta þau farið með mál í fjölmiðla og opinbera umræðu sem er góður vettvangur, ef tryggt er að öll sjónarmið komi fram. Hagsmunasamtök geta einnig reynt að beita sér gagnvart stjórnmálamönnum, þ.e. framkvæmdavaldinu, og reynt að beita þrýstingi. Þar sem sjálfstæði hagskýrslugerðar er tryggt með lögum og alþjóðlegum samningum yrði það þrautalending hagsmunasamtaka að reyna að koma tiltekinni hagskýrslugerð annað, það er í umhverfi þar sem þeir telja sig hafa áhrif til að sveigja upplýsingagjöf að hagsmunum sínum. Flest hagsmunasamtök birta reglulega greiningar og túlkanir á hagskýrslum og verða notendur að hafa í huga, að það er oft gert til að ná fram ákveðinni mynd, t.d. með því að velja upphafs- og lokapunkta til að styðja sitt mál, eða með öðrum aðferðum.

Samkvæmt Meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð eiga hagstofur að bregðast við ef misfarið er með hagskýrslur í opinberri umræðu. Almennt hefur verið farið mjög varfærnislega í slíkt af ótta við ásakanir um að hafa dregist inn í umræður sem eigi að vera á vettvangi stjórnmála.

Eðlileg viðbrögð eru að koma á framfæri hlutlausum upplýsingum sem notendur geti sjálfir skoðað og borið saman við annað efni og dregið sínar ályktanir, fremur en að gera athugasemdir við villandi meðferð á hagtölum í opinberri umræðu.

Hagstofa Íslands vill hrósa fjölmiðlum hér á landi fyrir hve vel og faglega þeir fjalla um hagtölur sem stofnunin gefur út og hefur ekki yfir neinu að kvarta í því sambandi, þvert á móti. Sama má segja um flesta greiningaraðila. Við síðustu gæðaúttekt Evrópska hagskýrslusamstarfsins á Hagstofunni var lagt til að stofnunin tæki meira frumkvæði í samskiptum við fjölmiðla. Ef eitthvað vantar á er það ef til vill að Hagstofan sjálf verði duglegri við að koma hagtölum sínum á framfæri og svari gagnrýni með markvissari hætti en verið hefur.

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri