Hagstofa Íslands leggur mikið upp úr góðu samstarfi við notendur hagtalna. Samtöl við notendur geta bæði verið reglubundin og tilfallandi. Reglubundin samtöl eru venjulega að frumkvæði Hagstofunnar sem formlegt samráð með fundum eða könnunum. Tilfallandi samtöl eru ýmist að frumkvæði Hagstofunnar eða notenda og fara fram með óformlegum eða formlegum hætti í gegnum síma, tölvupóst eða á fundum. Einnig geta notendur sett sig í samband við Hagstofuna í gegnum vefsíðu hennar. Reglubundin og skipulögð samtöl eiga sér stað í ráðgjafanefndum, notendahópum, faghópum og með notendakönnunum sem eru gerðar annað hvert ár.
Ráðgjafanefndum er ætlað að vera Hagstofunni til ráðgjafar í ákveðnum málaflokkum. Í dag eru starfandi fjórar ráðgjafanefndir: Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs, um vinnumarkaðstölfræði, um aðferðafræði og um mannfjöldaspár.
Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs starfar samkvæmt lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995. Nefndin er skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Hæstarétti, einum tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands og einum tilnefndum af Samtökum atvinnulífsins. Nefndin fundar mánaðarlega með Hagstofu Íslands samhliða útgáfu á vísitölu neysluverðs.
Ráðgjafarnefnd um vinnumarkaðstölfræði starfar samkvæmt samningi Hagstofu Íslands og Kjararannsóknarnefndar um launakannanir og aðrar vinnumarkaðsrannsóknir frá 9. september 2004 og sambærilegum samningi við Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna frá 11. mars 2009. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd samninganna og vera Hagstofunni til ráðgjafar um gerð vinnumarkaðsrannsókna, einkum launakannana. Í ráðgjafarnefndinni sitja tveir sérfræðingar frá Alþýðusambandi Íslands, tveir frá Samtökum atvinnulífsins, einn fulltrúi launagreiðenda á opinberum markaði og einn fulltrúi launamanna á opinberum markaði. Nefndin hélt þrjá fundi á árinu.
Ráðgjafarnefnd um aðferðafræði er ætlað að hvetja til notkunar traustra aðferða í vinnu Hagstofunnar. Haldinn var einn fundur á árinu þar sem rætt var um kafla í aðferðafræðihandbók Hagstofunnar og þeir samþykktir. Í ráðgjafarnefndinni sitja sérfræðingar í tölfræði og aðferðafræði frá háskólasamfélaginu, fyrirtækjum og stofnunum.
Ráðgjafarnefnd um mannfjöldaspár starfar að ósk Hagstofu Íslands og er ætlað að veita ráðgjöf um forsendur og framsetningu framreikninga um mannfjöldann. Henni er auk þess ætlað að rýna í aðferðir og útreikninga við gerð mannfjöldaspáa. Nefndin hélt einn fund á árinu.
Til að tryggja gæði hagtalna og þeirrar þjónustu sem Hagstofan veitir þarf að þekkja þarfir og væntingar þeirra sem nota þjónustu Hagstofunnar. Þarfir og væntingar notenda geta verið misjafnar og því leitast Hagstofan við að hitta sem flesta af sínum notendum og ræða um hvað betur megi fara. Eins eru gerðar notendakannanir annað hvert ár í sama tilgangi. Eftirfarandi notendahópar funduðu á árinu: Greiningaraðilar, rannsóknarsamfélagið, stjórnsýslan og ferðaþjónustan.
Í notendahópi greiningaraðila eru notendur sem nota hagtölur til að greina efnahagsmál og framvindu hagkerfisins. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá ráðuneytum og opinberum stofnunum, Seðlabanka Íslands, fyrirtækjum á fjármálamarkaði, sjálfstætt starfandi greiningarfyrirtækjum og samtökum á vinnumarkaði.
Notendahópur rannsóknarsamfélagsins fjallar um þarfir og væntingar þeirra notenda sem vegna vísindarannsókna fá aðgang að örgögnum hjá Hagstofunni og nota hagtölur til vísindalegra rannsókna. Hópurinn vinnur að bættri þjónustu fyrir örgagnanotendur og er ráðgefandi um mótun og framkvæmd stefnu Hagstofunnar í málefnum örgagna. Jafnframt er hópurinn ráðgefandi um hagnýtingu á gögnum, í umsjá stofnunarinnar, sem nýta má í vísindalegum tilgangi. Hópurinn hittist tvisvar á ári. Hann er skipaður fulltrúum frá háskólum, Seðlabanka Íslands og rannsóknarstofnunum.
Í notendahópi stjórnsýslunnar eru fulltrúar frá öllum ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Í notendahópi ferðaþjónustunnar eru fyrirtæki í ferðaþjónustu og samtök sem þjóna ferðaþjónustufyrirtækjum. Leitast verður við að fá einstaklinga í hópinn sem nota hagtölur til að greina stöðu og þróun ferðaþjónustunnar á hverjum tíma.
Engir fundir voru í faghópum á árinu.